Teikningavefur Byggingarfulltrúa
Teikningavefur Byggingarfulltrúa inniheldur alla aðaluppdrætti sem hafa verið skannaðir inn. Verkefninu er ekki lokið en nýjar teikningar eru skannaðar inn daglega og er áætlað að ljúka í júní á þessu ári. Finnist ekki uppdráttur er mjög líklegt að uppdrættir viðkomandi eignar séu á meðal þeirra. Ný samþykktir uppdrættir eru skannaðir inn innan mánaðar.

Teikningar í fullri upplausn
Hjá Þjónustuveri Reykjavíkurborgar að Borgartúni 12-14 eru teikningar fáanlegar í fullri stærð. Teikningaafgreiðsla er opin virka daga frá kl. 8:20-16:00. Fyrirspurnir er hægt að senda á eftirfarandi netfang (thjonustuver@reykjavik.is)

Hvernig finna megi teikningar af tiltekinni byggingu
Hægt er að leita að teikningum á tvo vegu:
1) Borgarvefsjá: Notandi fer inn á borgarvefsjá, finna byggingu t.d. með því að slá inn heimilisfang í Leita-reit eða finnur á korti borgarinnar, velur teikningahnapp og bygginguna aftur. Á flipa sem birtist er valið teikningar undir aðaluppdrættir.
2) Teikningavefur: Notandi fer beint inn á teikningavef Byggingarfulltrúa. Slær inn heimilisfang og húsnúmer og velur svo þær teikningar sem hann leitar eftir. Athugið að heimilisfang getur innihaldið fleiri en eitt númer, t.d. í fjölbýlishúsi eða raðhúsi, þá þarf að slá inn frá-til (t.d.Borgartún 8-16). Einnig er hægt að fara í ítarleit og slá inn aðrar og/eða fleiri breytur, t.d. landnúmer eða lýsingu.


Upplýsingaréttur
Í 6.gr. upplýsingalaga er fjallað um takmarkanir á upplýsingarétti vegna almannahagsmuna. Þar kemur fram í 1. tl. 1. mgr. að heimilt sé að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjist, enda hafi þau að geyma upplýsingar um öryggi ríkisins eða varnarmál. Almenningi er því ekki veittur aðgangur að teikningum af húsnæði sem eru þess eðlis.

Höfundarréttur
Samkvæmt 1.mgr.22.gr.a. höfundalaga er byggingarfulltrúa heimilt að veita aðgang að skjölum eða öðrum gögnum mála samkvæmt stjórnsýslulögum, upplýsingalögum og öðrum lögum þótt þau hafi að geyma verk er njóta verndar samkvæmt höfundalögum. Þessi upplýsingaréttur er þó háður því skilyrði að verkin verði ekki birt, eintök af þeim gerð, eintökum af þeim dreift eða þau nýtt með öðrum hætti nema með samþykki höfundar (2.mgr.).